Gaslýsing gerenda

Eftirfarandi grein eftir Gabríelu Bryndísi Ernudóttir birtist upphaflega á Facebook síðu Lífs án ofbeldis þann 28. apríl 2021:

Fullyrðingar meints geranda í fjölmiðlum eiga ekki við rök að styðjast. Frásögn barnsins af kynferðisbrotum föður þykir trúverðug og er tekin alvarlega af yfirvöldum

Fullyrðingar meints geranda í fjölmiðlum eiga ekki við rök að styðjast. Frásögn barnsins af kynferðisbrotum föður þykir trúverðug og er tekin alvarlega af yfirvöldum

Þjóðþekktur faðir greindi frá því á samfélagsmiðlum sumarið 2018, sem og í fjölmiðlum og opnum færslum á samfélagsmiðlum næstu árin, að sonur hans hefði frá sex ára aldri tjáð sig um að faðir hans væri að brjóta á sér kynferðislega og í kjölfarið hefði faðir ekki fengið að hitta son sinn í tvö ár. Árið þar á undan hafði hann, allt frá því að tilkynningar bárust til Barnaverndar Reykjavíkur, sent tölvupósta á fjölda fólks um málið og lýst sig fyrirfram saklausan af frásögnum barnsins um kynferðislegt ofbeldi. Haft er eftir meintum geranda í blaðaviðtali í júlí 2019, að fjölskylda barnsins hefði tilkynnt um frásögn sonar hans af kynferðisbrotum af hans hálfu til barnaverndaryfirvalda, og að hann hafi vegna þess þurft að sæta óréttmætri lögreglurannsókn. „Niðurstaðan var sú að ég væri fullkomlega saklaus“ lætur faðirinn hafa eftir sér um niðurstöðu lögreglurannsóknarinnar.

Meintur gerandi nafngreindi sig í fjölmiðlum, dreifði villandi upplýsingum um einkalíf barns og gerði þolendur málsins auðþekkjanlega án þess að þeir gætu tekið til varna. Þolandi í þessu máli er barn sem getur ekki varið sig gegn meintum geranda, ofríki hans og meðbyr. Barnið sem í dag er að verða unglingur hefur rekist á ósannindi meints geranda um atvik málsins á netinu, með tilheyrandi áfalli, þar sem meintur gerandi talar gegn framburði barnsins. Móðurfjölskylda barnsins gaf út yfirlýsingu fyrr í mánuðinum, sem birt var á fésbókarsíðu Lífs án ofbeldis, og nafngreindi manninn.

Vegna þess að barnið sýnir merki um áfallastreitu vegna opinberrar eindreginnar neitunar föður í fjölmiðlum og víðar og vegna þess hversu opinber umfjöllun um persónuleg mál barnsins var vægðarlaus og gróflega var brotið á rétti þess, með stuðningi margra hundraða manna við málatilbúnað meints geranda, er það neyðarúrræði að leiðrétta framkomnar rangfærslur barninu til varnar.

NIÐURFELLING ÞÝÐIR EKKI FULLKOMIÐ SAKLEYSI MEINTS GERANDA

Barnavernd Reykjavíkur óskaði eftir lögreglurannsókn. Niðurstaða héraðssaksóknara í máli meints geranda var sú að fella málið niður og vó þar þungt eindregin neitun föður. Í rannsóknargögnum lögreglu kemur samt sem áður fram að barnið hafi sagt frá aðalatriðum með góðu samræmi. Réttargæslumaður barnsins, með leyfi fjölskyldunnar, kærði niðurfellingu héraðssaksóknara en ríkissaksóknari staðfesti niðurstöðuna um að fella málið niður vegna skorts á sönnunargögnum og vegna neitunar föður. Talin var þörf á haldbærari sönnunargögnum en trúverðugum framburði barnsins, hegðun þess, framburði vitna, mati sálfræðinga og fagfólks sem vitnaði um að barnið hefði sagt frá kynferðisofbeldi með sannfærandi hætti, til þess að meint brot þættu líkleg til sakfellingar. Málið fór því aldrei fyrir dómstóla.

Stór hluti rannsakaðra mála er tengjast kynferðisbrotum gegn börnum er felldur niður hjá héraðssaksóknara og ríkissaksóknara m.a. vegna skorts á sönnunargögnum. Hvorki héraðssaksóknari né Barnahús fjalla um sakleysi manna og hafa ekki gefið út þær fullyrðingar að meintur gerandi sé saklaus heldur þvert á móti, eftir að málið skýrðist betur, hafa yfirvöld aðstoðað barnið við að vinna úr sínum áföllum er tengjast meintum brotum.

GOTT SAMKOMULAG UM JAFNA UMGENGNI FRÁ FÆÐINGU

„[Faðir] rekur ásakanirnar til umgengnisdeilu sem hann og barnsmóðir hans hafa staðið í um langt skeið“, kom fram í umfjöllun um málið. Þessi fullyrðing á ekki við rök að styðjast en foreldrar hafa haft jafna umgengni við barnið frá fæðingu þess og vitna gögn frá sýslumanni um að þar hafi ríkt ágætt samkomulag þar til faðir höfðaði umgengnismál eftir að barnið tjáði sig um vanlíðan á heimili föður og vildi faðir þá að barnið dveldi hjá sér og umgengni við móðurfjölskyldu yrði takmörkuð. Móðurfjölskylda kom aldrei í veg fyrir umgengni en þau lögðu til breytt fyrirkomulag þegar barnið hafði ítrekað greint frá óþægindum í umgengni á heimili föður. Þá var leitað með barnið til sálfræðings sem hvatti barnið til þess að tjá sig um leyndarmálin sín. Meintur gerandi lýsti því sjálfur í viðtali við fjölmiðla hvernig hann hefur alltaf annast barnið, sem stangast á við orð hans um langvarandi umgengnisdeilu.: „Ég er ekki einhver helgarpabbi sem allt í einu fæ ekki son minn aðra hverja helgi til að fara með niður að Tjörn að gefa öndunum brauð. Ég er búinn að sinna syni mínum fullkomlega til jafns við barnsmóður mína frá fæðingu hans.“ Gögn sýna einnig að móðir barnsins fór ein með forsjá þess frá fæðingu en óskaði sjálf eftir því við sýslumann, þegar barnið var tveggja ára, að forsjá yrði gerð sameiginleg. Ekki var deilt um jafna umgengni foreldra en móðurfjölskylda lýsti áhyggjum af þeirri streitu sem barnið upplifði vegna búferlaflutninga föður á Vestfirði og veru barnsins í tveimur leikskólum, en það fyrirkomulag varði í rúmt ár. Ljóst er af tölvupóstum að móðir óskaði endurtekið eftir góðum samskiptum við föður: „Ég vil með öllu leita lausna og reyna með einhverju móti að mætast á miðri leið. Getum við reynt með einhverju móti að hlusta á hvort annað, reynt að skilja og tekið síðan ákvörðun út frá því?“

BARNIÐ SAGÐI FRÁ KYNFERÐISOFBELDI Í BARNAHÚSI

„Sérfræðingar í Barnahúsi telja að sonur [hans] hafi ekki orðið fyrir kynferðisofbeldi,“ var fullyrt í fjölmiðlum en samræmist ekki niðurstöðu Barnahúss.

Barnið greindi fjölskyldu sinni frá því að meintur gerandi hefði beitt það kynferðisofbeldi og í kjölfarið bárust tilkynningar til Barnaverndar Reykjavíkur. Fulltrúar barnaverndar fóru í skóla barnsins og ræddu við það. Þegar barnið var spurt út í meint brot dró það húfuna niður fyrir andlitið og sagðist ekki vilja tala um meint brot, samkvæmt gögnum barnaverndar.

Í kjölfarið fór barnið ásamt kennara sínum í könnunarviðtal í Barnahúsi þar sem það tjáði starfsmanni Barnahúss að það ætti leyndarmál sem það vildi ekki ræða og taldi einnig upp ákveðin atvik á heimili föður, ótengd kynferðisofbeldinu, sem hefðu valdið vanlíðan en sagði að atvikin hefðu gerst óvart. Í skýrslu Barnahúss kemur skýrt fram að þó að barnið hafi ekki tjáð sig um kynferðisofbeldið í könnunarviðtalinu útiloki það ekki að slíkt hafi átt sér stað.

Eftir könnunarviðtalið tjáði barnið sig við fjölskyldu sína um vanlíðan og að hafa ekki viljað segja frá leyndarmáli sínu og var barnavernd upplýst um það. Fulltrúi frá barnavernd kallaði eftir því að hitta barnið á skrifstofu barnaverndar þar sem barnið tjáði sig um það að meintur gerandi beitti sig endurtekið kynferðisofbeldi. Barnavernd taldi tilefni til að fara fram á lögreglurannsókn vegna frásagnarinnar og því fór barnið aftur í Barnahús að beiðni barnaverndar í skýrslutöku á vegum lögreglunnar. Samkvæmt gögnum úr Barnahúsi sagði barnið frá því í skýrslutökunni að faðir þess hafi mörgum sinnum beitt það kynferðisofbeldi. Sagði það frá reynslu sinni á barnslegan og einlægan hátt og hafði þörf fyrir að verja föður sinn þar sem barnið trúði því að um væri að ræða eðlilega tjáningu ástar á milli föður og barns, án þess þó að draga nokkuð úr því að meint brot hefðu átt sér stað. Í kjölfarið fór barnið í meðferðarviðtöl í Barnahúsi þar sem barnið hafði litla einbeitingu og vildi lítið ræða annað en þau leikföng sem það lék sér með, eins og fram kemur í lokaskýrslu Barnahúss um meðferðarviðtölin. Fullyrðing meints geranda um að sérfræðingar í Barnahúsi telji að ekkert kynferðisbrot hafi átt sér stað, á því ekki við rök að styðjast.

VIÐURKENNDI FRAMBURÐ BARNSINS UM VANLÍÐAN Á HEIMILI SÍNU

„Eftir seinna skiptið vorum við barnsmóðir mín kölluð inn á fund sálfræðingsins sem sagði að ekkert væri hæft í neinum ásökunum um að drengurinn hefði orðið fyrir ofbeldi,“ sagði faðirinn.

Barnið hafði tjáð sig um að það ætti leyndarmál, og lýsti atvikum á heimili föður sem ollu því vanlíðan, í viðtölum við sálfræðing sem hitti barnið áður en það sagði frá meintum brotum föður. Sálfræðingurinn hvatti barnið til að tjá sig um sín leyndarmál við fólk sem það treysti. Meintur gerandi viðurkenndi þessa frásögn barnsins í yfirheyrslu hjá lögreglunni, í bréfi til sýslumanns og í gögnum barnaverndar, aðspurður um skýrslu sálfræðingsins og sálfræðitímana sem um ræðir. Einnig kemur það fram í gögnum um málið og í greinargerð sálfræðingsins að sálfræðingur hafi ráðlagt foreldrum að leita til barnaverndar með málið. Sálfræðingurinn ráðlagði foreldrum að virkja samskipti föður og barnsins sem móðurfjölskyldan leitaðist eftir en faðir neitaði að sinna nema að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Þau skilyrði gerðu kröfu um að barnið yrði áfram sett í stöðu sem það sagði valda sér mikilli vanlíðan, án nokkurra frekari lausna. Samkvæmt þessu er ljóst að meintur gerandi sagði annað í blaðaviðtali en hann hafði áður viðurkennt við embættin og fjölskyldu barnsins.

SÝSLUMAÐUR ÚRSKURÐAÐI UM ENGA UMGENGNI

„Ég hef ekki séð drenginn minn í að verða tvö og hálft ár, fyrst vegna tálmunar, síðan vegna þessara fáránlegu ásakana og nú vegna þess að það er ekkert að gerast í því að koma á sambandi okkar á milli, af hálfu barnaverndaryfirvalda,“ sagði faðirinn.

Sýslumaðurinn á Höfuðborgarsvæðinu úrskurðaði um sumarið 2017 að faðirinn ætti ekki að fá neina umgengni við son sinn. Sá úrskurður er enn í gildi. Frá því í janúar 2017 var barnið alfarið í umsjá móðurfjölskyldu sinnar vegna ótta sem það upplifði á heimili föður. Faðir átti kost á því að hitta barnið eins mikið og hann vildi þar til barnið sagði frá því í mars 2017 að meintur gerandi, faðir sinn, hefði brotið á sér kynferðislega, en þá fékk fjölskyldan þær ráðleggingar frá barnavernd að gera það sem barninu væri fyrir bestu og gerði því hlé á umgengni. Faðir mætti til umgengni í eitt skipti í febrúar en sinnti umgengni eða símtölum við barnið á tímabilinu ekki að öðru leyti. Einnig sýna gögnin að fjölskyldan tilkynnti endurtekið til barnaverndar og sýslumanns að barnið vildi hitta föður sinn þrátt fyrir að greina frá meintum kynferðisbrotum, og leituðu ráða.

BARNIÐ VAR SPURT EÐLILEGRA SPURNINGA

„Félagsráðgjafinn sem leyfði barnsmóður minni að stýra viðtalinu við son okkar gerði þessi alvarlegu mistök sem verða til þess að málið vindur upp á sig,“ sagði faðirinn.

Samkvæmt gögnum barnaverndar kemur fram að fulltrúi þeirra hafi reynt að eiga samskipti við barnið í einrúmi en að barnið hafi verið óöruggt, liðið illa og óskað eftir nærveru móður sinnar. Eðlilegt er fyrir börn í aðstæðum sem þessum, að óska eftir foreldri eða manneskju sem þau treysta, sér til stuðnings. Fulltrúinn kallaði því á móður inn í herbergið og spurði barnið spurninga í viðurvist móður sem tjáði því að það væri óhætt að segja barnaverndarfulltrúa frá leyndarmálum sínum. Í gögnum kemur einnig fram að eftir spurningar fulltrúans til barnsins og eftir að barnið tjáði sig um meint kynferðisofbeldi, hafi barnið verið að ræða líkamsparta og átt erfitt með að segja nafnið á ákveðnum líkamsparti berum orðum. Móðir spurði þá á hvaða bókstaf líkamsparturinn sem barnið vísaði til, byrjaði á, og svaraði barnið því. Barnaverndarfulltrúinn spurði þá frekar og fékk þá staðfestingu frá barninu að það væri líkamsparturinn sem maður pissar með. Að öðru leyti er ekki að sjá í gögnum að móðir hafi haft nein afskipti af samtalinu sem barnaverndarfulltrúi stýrði. Barnaverndarfulltrúinn spurði allra annarra spurninga. Í gögnum kemur einnig fram að barnið sagðist vera hrætt við að segja frá og gróf andlit sitt í bók. Í viðtalinu lýsti barnið því hvernig faðir hafi ítrekað átt frumkvæði að kynferðislegum samskiptum við það en sagðist sjálft ekki hafa mótmælt og hefði knúsað föður á eftir. Í gögnum barnaverndar, rúmum 150 blaðsíðum, er hvergi að finna dagálsnótu sem bendir til annars en að fulltrúinn hafi stýrt samtalinu.

Í gögnum lögreglu má finna bréf frá lögfræðingi þar sem hann leggur mat á eina af útskrifuðu upptökunum þar sem barnið tjáði sig um kynferðisofbeldið. Í upptökunni er bók lesin fyrir barnið og mat hann orð lesandans, móður, leiðandi og vitnaði lögfræðingurinn í setningar máli sínu til stuðnings. Þær setningar voru orðrétt upp úr bókinni Þetta er líkaminn minn sem gefin er út af Barnaheill, og voru því ekki dæmi um orð lesandans heldur upplestur úr bók. Í öðrum gögnum kemur það fram að fjölskyldan hafði fengið þær leiðbeiningar eftir að barnið hafði tjáð sig lítillega um kynferðisbrotin skömmu áður, um að lesa bókina fyrir barnið. Bókin er afhent í öllum grunnskólum í landinu og foreldrar hvattir til að lesa hana fyrir börn sín. Á þessum tíma voru börnin í fræðslu í skólanum og barnið hvatt til að segja frá leyndarmálum sínum. Mögulegt er að þessi misskilningur lögfræðingsins hafi villt um fyrir fleirum sem komu að málinu.

Skráð saga málsins sýnir að fjölmörg vitni, fjölskylda, vinir, foreldrar vina og starfsfólk úr frístund barnsins hafa greint frá því að barnið hafi frá unga aldri sýnt ýmis viðvörunarmerki þess að hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi. Aðstandendum og fagfólki bar saman um að barnið hafði meiri vitneskju um kynhegðun en börn á þessum aldri almennt hafa, og hafði grunnskóli barnsins tilkynnt atvik til barnaverndar og leitað ráðlegginga Barnahúss vegna þessa. Málflutningur föður um að fjölskylda, fagaðilar, eða aðrir sem bera vitni um frásagnir og óvenjulega vitneskju barnsins séu andlega vanheilir eða haldnir einhvers konar ranghugmyndum, er því undarlegur. Faðir hefur ekki viljað kannast við nokkuð því líkt sem aðrir í nærumhverfi barnsins lýsa, þrátt fyrir að hafa fengið sent bréf frá barnavernd um tilkynningu skólans þess efnis, né minnst á þetta í viðtölum við fjölmiðla.

BARNAVERND AFHENTI MEINTUM GERANDA GALLAÐA SKÝRSLU

Faðir sendi skriflega kvörtun til Barnaverndar Reykjavíkur um faglegan misbrest hjá barnavernd þar sem hann kvartaði yfir því að kallað hefði verið á móður til stuðnings við barnið ásamt því að varpa fram fjölda fullyrðinga sem hann meðal annars hélt fram í fjölmiðlum sem eiga ekki við rök að styðjast í gögnum. Kvörtun meints geranda var tekin upp hjá barnavernd og staðfest í skýrslu án þess að litið hafi verið til fyrirliggjandi gagna um málið sem sýna önnur málsatvik sem stangast á við það sem meintur gerandi hélt fram í kvörtun sinni, þ.á.m. það sem hann sjálfur hafði áður viðurkennt hjá barnavernd og lögreglu.

Í framhaldi af kvörtun föður afhenti barnavernd honum gallaða skýrslu sem einkennist af alvarlegum staðreyndavillum sem hann síðar notaði gegn barni sínu á opinberum vettvangi.
Litið var framhjá því í skýrslunni að barnið hefur endurtekið tjáð sig á einlægan hátt, meðal annars við Barnavernd Reykjavíkur og Barnahús, um meint kynferðisofbeldi í þeirri trú að faðir hafi haft leyfi til þess vegna þess að hann elskaði það, og að frásögnin er eingöngu bundin við hegðun föður gagnvart barninu. Einnig var litið framhjá áðurnefndum vitnisburði mismunandi aðila, fagaðila og foreldra vina barnsins og barnaverndartilkynningum um þessa vitneskju barnsins um kynhegðun. Svo virðist sem kvörtun meints geranda hafi verið tekin öll upp í skýrslunni og villandi fullyrðingar hans samþykktar án frekari skoðunar.

BARNIÐ REYNDI AÐ RIFJA OFBELDIÐ UPP FYRIR FÖÐUR

Eftir að skýrsla barnaverndar var gefin út fór barnið í meðferð á vegum barnaverndar, í þeim tilgangi að koma á sambandi milli föður og barns vegna þeirra mistaka sem barnavernd taldi sig hafa gert. Barnið og faðir hittust einir í viðtölum með meðferðaraðila yfir fjögurra mánaða tímabil. Eftir að hafa kynnst föður, barninu og fjölskyldu þess nánar í meðferðartímum gaf meðferðaraðilinn út greinargerð um málið. Í greinargerðinni skrifaði meðferðaraðilinn meðal annars að barnið hafi fundið fyrir reiði gagnvart móður vegna þess að hún hafi sagt öðrum frá leyndarmálinu og að barnið langaði að hitta föður sinn. Faðir hafi einnig óskað eftir umgengni við barnið í tímunum. Því hafi verið ákveðið að hefja umgengni við föður í meðferðartímum hjá meðferðaraðilanum. Fram kemur að í fyrstu hafi gengið vel en þegar leið á meðferðina hafi barnið farið að tjá sig um hvers vegna faðir og barnið hefðu hætt að hittast og lýsti eftirsjá að hafa sagt frá leyndarmálinu. Í greinargerð meðferðaraðila kemur fram að barnið sagðist vera með ýmislegt í minningunni um að faðir þess hefði gert ólöglegt við það. Lýsti barnið því næst kynferðisbrotunum með nákvæmum hætti í viðurvist föður, að meðferðaraðilanum viðstöddum, sem faðir neitaði að kannast við. Barnið hélt þá áfram að rifja upp með enn nákvæmari hætti en fékk áfram sömu viðbrögð frá föður. Við lok samtals færði barnið sig frá föður, dró sig í hlé, hvarf inn í eigin heim og sýndi merki um vanlíðan yfir því að faðir segðist ekki muna eftir atvikunum, að mati meðferðaraðila. Í skýrslu meðferðaraðilans stendur einnig að eftir viðtalið hafi barnið sýnt mikla vanlíðan á heimili sínu sem fjölskyldan lét meðferðaraðilann vita af, þrátt fyrir að fjölskyldan hafi þá ekki haft vitneskju um það sem átti sér stað í tímanum.

Þrátt fyrir vilja barnsins til að hitta föður og vitneskju um ástæðu aðskilnaðarins hefur barnið aldrei dregið úr eða breytt frásögn sinni heldur leitast eftir því að fá viðurkenningu á kynferðisofbeldinu og beiðni um fyrirgefningu frá föður sínum.

ÍHLUTUN FRAMKVÆMDASTJÓRA BARNAVERNDAR REYKJAVÍKUR

Í gögnum máls kemur það fram að eftir að gölluð skýrsla var gefin út og í kjölfar einnar einhliða fjölmiðlaumfjöllunar um meintan geranda, sem fjöldi þjóðþekktra einstaklinga og embættismanna tók undir, hafi framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur, Hákon Sigursteinsson, sem hafði annars enga aðkomu haft að málinu, hringt sjálfur í meintan geranda og beðið hann afsökunar á vinnubrögðum barnaverndar. Einnig bauð hann honum fjárstuðning í formi sálfræðiviðtala og aðra persónulega aðstoð, sem faðirinn afþakkaði. Þá lofaði Hákon sjálfur að hlutast til um málið og gera allt sem í sínu valdi stæði til að meintur gerandi fengi að vera með barnið, þvert á úrskurð sýslumanns um enga umgengni sem var þá og er enn í gildi. Símtöl og tölvupóstsamskipti framkvæmdastjóra og meints geranda um mál barnsins, og þau loforð sem upp eru talin voru aldrei kynnt móðurfjölskyldu þess. Það getur varla talist eðlileg stjórnsýsla um líf barns að þessi nýja nálgun Barnaverndar Reykjavíkur á málið hafi ekki verið kynnt forsjáraðila barnsins með formlegum hætti. Afsökunarbeiðni um meint gölluð vinnubrögð barnaverndar í máli barnsins barst hins vegar aldrei móðurfjölskyldu þess..

Fjölskylda barnsins og Hákon áttu í samskiptum í gegnum tölvupósta þann tíma sem meðferð fyrir barnið stóð. Faðir hótaði að sækja barnið í skólann og sagði það vera með leyfi Barnaverndar Reykjavíkur. Fjölskyldan kannaðist að vonum ekki við þessa nýju meðferðaráætlun. Þá hafði fjölskyldan sent tölvupóst á fulltrúa barnsins hjá barnavernd til að grennslast frekar fyrir um hvort staðan væri breytt, sem barnaverndafulltrúar áframsendu á milli sín og síðan til Hákons Sigursteinssonar, framkvæmdastjóra barnaverndar.

Fjölskylda skrifar þá til framkvæmdastjóra;
„Sæll Hákon. Faðir er staðráðinn í að sækja son okkar án alls undirbúnings í skólann núna á föstudaginn og segir að hann hafi fengið leyfi frá Barnavernd, þér og [öðrum barnaverndarstarfsmanni] til að sækja hann án undirbúnings með fagaðilum og segir okkur tálma fari ég ekki eftir hans kröfum. Ef það er raunin þá þætti okkur vænt um að fá þær upplýsingar?“

Hákon skrifar til fjölskyldu barnsins:
„Það er ekkert því til fyrirstöðu að þeir feðgar hittist. Það sem er mikilvægt er að traumatisera þetta ekki of mikið gagnvart barninu sem hefur tjáð vilja sinn um að hitta föður sinn.“

„Þú verður að fylgjast áfram með hegðun drengsins og treysta því að aðilar í kringum föður og faðir sjálfur sinni sínu hlutverki sem uppalendur og verndarar með sóma.“

Á þessu tímabili hafði fjölskylda barnsins endurtekið tilkynnt til barnaverndar vilja barnsins til að hitta föður, leitað ráða og samþykkt meðferð sem stuðlaði að því að barnið gæti hitt föður í öruggum aðstæðum, líkt og fram hefur komið. Þá var einnig í gildi áðurnefndur úrskurður sýslumanns um að faðir ætti ekki að hafa umgengni við barnið, en það er lögbundið hlutverk sýslusmannsembætta en ekki barnaverndaryfirvalda að taka ákvarðanir um umgengni barna við foreldra. Ekki er ljóst hvað framkvæmdastjóra Barnaverndar Reykjavíkur gekk til með sinni íhlutun en niðurstaðan varð sú að barnið var ekki sótt af föður heldur hélt áfram í meðferð sinni, eftir ábendingu meðferðaraðilans.

BARNIÐ ER TRÚVERÐUGT OG ÞVÍ BER AÐ TAKA ÞAÐ ALVARLEGA

Í lokaskýrslu meðferðaraðila sem var með barnið og föður í meðferð yfir fjögurra mánaða tímabil kom eftirfarandi fram;

,,Undirrituð hefur leitað álits Barnahúss og barnageðlæknis varðandi umrædda vinnu með fjölskyldunni. Það er mat undirritaðrar að [nafn barns] sé að segja satt varðandi sína upplifun af kynferðislegu áreiti/ofbeldi af hálfu föður og að þörf sé á að taka málið alvarlega.

Undirrituð leggur til að ef [nafn barns] vill hitta föður áfram fari sá hittingur áframhaldandi fram á stofu undirritaðrar ásamt undirritaðri. Einnig að annaðhvort móðir eða fósturfaðir sé ínáanlegur á biðstofu.“

Meðferðaraðili óskaði einnig eftir því að faðir fengi stuðning og fjölskyldan öll. Á þessum tíma hafði móðurfjölskylda barnsins tilkynnt til barnaverndar, sýslumanns og meðferðaraðila vilja sinn til að halda áfram að vinna úr reynslu barnsins af kynferðisofbeldi, með föður og barni, á meðan vilji barnsins væri til þess, svo framarlega sem að meðferðin væri fyrst og fremst stuðningur við barnið.

Fram að því að skýrslu meðferðaraðilans var skilað til barnaverndar hafði faðir ekkert út á meðferðina að setja. Eftir að skýrsla meðferðaraðilans var send Barnavernd Reykjavíkur kvartaði faðir yfir starfi meðferðaraðilans, bæði við hann sjálfan og við barnavernd og neitaði að taka frekar þátt í meðferðinni og dró stuttu síðar til baka nýhafið umgengnismál sitt hjá sýslumanni.

Skýrsla meðferðaraðilans er talin vera til þess fallin að hægt væri að hefja nýja lögreglurannsókn, en fjölskylda barnsins tók þá ákvörðun að hefja ekki nýja lögreglurannsókn á málinu, með samþykki barnaverndar, og fela barninu það vald í framtíðinni að ákveða það sjálft. Fjölskyldan vildi einbeita sér alfarið að því að hlúa að barninu, bata þess og uppbyggingu eftir áföll sín.

OPINBER STUÐNINGUR FJÖLDA FÓLKS, ÞJÓÐÞEKKTRA EINSTAKLINGA OG EMBÆTTISMANNA VIÐ MEINTAN GERANDA

Sú alvarlega gallaða skýrsla Barnaverndar Reykjavíkur, sem byggir á kvörtunarbréfi meints geranda og afsökunarbeiðni framkvæmdastjóra olli því að meintur gerandi hefur haft rúmt aðgengi að öllum helstu fjölmiðlum landsins síðustu árin til að dreifa ósannindum um barnið og fjölskyldu þess. Fjöldinn allur af fólki, þjóðþekktir einstaklingar, embættisfólk, þingmenn og einn núverandi ráðherra, studdu við meintan geranda opinberlega á samfélagsmiðlum. Með þessum stuðningi var rödd barnsins þögguð og meintur gerandi settur í yfirburðastöðu til að fá samúð þjóðarinnar með sér og einangra móðurfjölskyldu barnsins og barnið sjálft í skömm og niðurlægingu sem ekki er þeirra. Sjónarmið barnsins fengu ekki rými í fjölmiðlum fyrr en eftir að fjölskyldan loks varði barnið opinberlega, nú á dögunum, á fésbókarsíðu Lífs án ofbeldis, fjórum árum eftir að málið kom upp.

Hvernig sem á málið er litið urðu rangfærslur meints geranda um framburð barnsins til þess að mannréttindi barns voru höfð að engu. Meintum geranda voru afhent fjölmörg verkfæri til að beita valdi sínu gegn barni sem var eitt til frásagnar. Þetta mál er ekki það fyrsta né síðasta af þessari gerð, en fjöldi barna í okkar samfélagi eru beitt ofbeldi af hálfu nákomins aðila sem neitar að hafa gert nokkuð rangt. Að þola ofbeldi af hendi foreldris er áfall fyrir barn, en að horfa upp á samfélagið taka undir með meintum geranda og neita að trúa frásögn þess er annað afdrifaríkt áfall. „Meintum“ gerendum er afhent vald til að beita almenningi, kerfinu og fjölmiðlum sem vopni til að snúa sannleika barna á hvolf. Við sem samfélag berum fyrst og fremst ábyrgð á að vernda mannréttindi barna um að eiga líf án ofbeldis og tryggja þeim rými til að tjá skoðanir sínar og reynslu án þess að fullorðið fólk snúist gegn þeim.

Barni og fjölskyldu þess heilsast vel en er enn þann daginn í dag í samtalsmeðferð vegna frásagna barnsins um kynferðisofbeldi af hálfu meints geranda, hjá sálfræðingi sem vann með málið í Barnahúsi sem og öðrum fagaðilum.

Höfundur: Gabríela Bryndís Ernudóttir, formaður Lífs án ofbeldis.

Previous
Previous

Faraldur ofbeldis gegn konum og börnum í COVID heimsfaraldri

Next
Next

The Misogynist Violence of Iceland’s Feminist Paradise