Faraldur ofbeldis gegn konum og börnum í COVID heimsfaraldri

Eftirfarandi pistill eftir Sigrúnu Sif Jóelsdóttur birtist upphaflega á vef Stundarinnar þann 23. apríl 2020.

Stjórnvöld víða um heim beita nú róttækum aðgerðum til að stemma stigu við útbreiðslu COVID-19 en inngripinu sjálfu í líf fólks hefur verið lýst sem því afdrifaríkasta síðan á tímum seinni heimsstyrjaldar. Aðstæðurnar sem heimsbyggðin stendur frammi fyrir hafa ýtt undir annan lífshættulegan faraldur sem ólíkt COVID – 19 leggst af meiri þunga á konur og börn en karla. Sá faraldur, sem geisað hefur um byggð ból lengur en elstu ömmur muna, er ofbeldi gegn konum.

Heimilisofbeldi hefur tekið á sig mynd tækifærissinnaðrar sýkingar sem nærist á þeim kringumstæðum sem almannavarnir hafa skapað. Reynslan kennir að heimilisofbeldi bæði eykst og verður hættulegra þegar samfélög ganga í gegnum álagstíma og efnahagsþrengingar. Sá sem beitir ofbeldi í samskiptum hefur ennþá ríka þörf til að viðhalda ógnarstjórn og upplifa yfirburði sína gagnvart fjölskyldunni. Vikum saman hafa aðgerðasinnar, sérfræðingar og mannréttindasamtök lýst áhyggjum sínum af þolendum heimilisofbeldis í einangrun með geranda og varað stjórnvöld við vaxandi og hættulegra ofbeldi gegn konum og börnum. Tilkynningar um heimilisofbeldi meira en þrefölduðust í Hubei-héraði í Kína á meðan útgöngubann var í gildi. Það er ekki að ástæðulausu sem aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur hvatt allar ríkistjórnir þjóðríkjanna til að setja forvarnir og aðgerðir sem vinna gegn ofbeldi á konum í forgrunn í viðbrögðum ríkja við COVID-19.

Þann 29. mars síðastliðinn var Craig Woodhall, fertugur faðir og eiginmaður Victoriu Woodhall, handtekinn grunaður um að hafa stungið 31 árs gamla eiginkonu sína til bana fyrir utan heimili þeirra í South Yorkshire á Englandi. Nágranni þeirra sem sendi út neyðarkall á samfélagsmiðlum sagði konu hafa verið myrta úti á götu fyrir allra augum. Vegna útgöngubannsins sem var í gildi er talið að fjöldi fólks hafi orðið vitni að því úr húsum sínum þegar Victoria, sem var starfandi hjúkrunarfræðingur við Rotherham sjúkrahúsið í Barnsley, var myrt um hábjart sunnudagseftirmiðdegi. Ekki er hægt að útiloka að börnin þrjú sem voru inni í húsinu hafi orðið vitni að hrottalegu morðinu á móður þeirra.

Karlar sem drepa konur   

Annan dag aprílmánaðar ákvað Joseph Zujkowski að hunsa fyrirmæli Maryland fylkis í Bandaríkjunum um að halda sig heima, setti riffilinn í bílinn og keyrði í 30 mínútur að heimili fyrrverandi konu sinnar. Þegar Heather Zujkowski, 36 ára, kom heim hóf Joseph skotárás frá götunni og skaut hana til bana en einnig ungling sem æfði lacrosse í garðinum í næsta húsi. Joseph Zujkowski keyrði því næst aftur heim og skaut sjálfan sig. Þar með endaði áralöng ofbeldissaga eiginmannsins gegn Heather sem hafði notið verndar yfirvalda frá Joseph. Vegna skráðra ofbeldisbrota, kyrkingar og eltihrellingar, var honum af öryggisástæðum meinað um að hafa skotvopn í sinni vörslu en bannið hafði runnið út í janúar á þessu ári. Sama dag, í Georgetown Texas, sótti Ruben Tobias skambyssuna sem hann geymdi í herberginu sínu og hóf að skjóta á kærustu og 15 ára gamla dóttur hennar. Síðan beitti hann vopninu á sjálfan sig. Kærastan slapp lifandi við illan leik en dóttir hennar sem sögð var elskuleg lífsglöð stúlka lifði skotárásina ekki af.

Þann 28. mars fannst kona á sextugsaldri látin að heimili sínu á Suðurnesjum. Sterk­ur grun­ur er um að and­lát konunnar hafi borið að með sak­næm­um hætti og er það rannsakað sem manndráp. Sambýlismaður konunnar, einnig á sextugsaldri, var handtekinn þann 1. apríl og hefur einn stöðu grunaðs í málinu. Samkvæmt rannsóknarlögreglu og lækni var ekk­ert á vett­vangi sem benti til þess að eitt­hvað sak­næmt hefði átt sér stað en krufning réttarmeinafræðings bendir til að þrengt hafi verið að öndunarvegi konunnar. Kona um sex­tugt fannst lát­in í heima­húsi í Hafnar­f­irði aðfaranótt 6. apríl en til­kynn­ing um málið barst lög­reglu um hálft­völeytið. Þegar lögreglan kom á vett­vang var kon­an lát­in. Sonur konunnar, karlmaður á þrítugsaldri, var handtekinn á staðnum grunaður um að hafa myrt móður sína.

Faraldur í faraldri

Kynbundið ofbeldi er samkvæmt tölfræðinni eitt útbreiddasta mannréttindabrot sem framið er á jarðarkringlunni en sem í hlutfalli við alvarleika hefur jafnframt lítið vægi í allri umfjöllun og ákvarðanatöku þjóðríkja. Árið 2017 voru 87.000 konur drepnar af ásetningi á heimsvísu. Meira en helmingur allra þeirra kvenna (58%) voru myrtar af maka eða nákomnum. Það þýðir að fyrir hvern dag sem leið árið 2017 voru 137 konur drepnar af einhverjum sem þær þekktu vel. Á hverjum 10 mínútur sem liðu árið 2017 var ein kona myrt af nákomnum einhversstaðar í heiminum. Tölur frá lögregluembættunum um heimilisofbeldi hér á landi eiga samsvörun við þann raunveruleika sem birtist meðal annars í alþjóðarannsóknum. Af þeim konum sem myrtar voru á Íslandi á árunum 1999–2018 var helmingur þeirra drepinn af maka eða fyrrverandi maka. Í 9% tilvika þar sem karlar voru drepnir var gerandinn maki eða fyrrum maki. Um það bil 82% þeirra sem myrt eru í nánu sambandi á á alþjóðavísu eru konur.

Sá fjöldi kvenna sem sem lést í heimilisofbeldi á fyrstu þremur vikunum eftir að útgöngubann tók gildi í Bretlandi er sá mesti sem þar þekkist síðustu 11 árin.  Tíðni morða á konum meira en tvöfaldaðist á við meðaltíðni á sambærilega löngu tímabili síðustu 10 árin. Haft er eftir Karen Ingala Smith, stofnanda verkefnisins „Counting Dead Women“ þar í landi, að dagana 23. mars til 12. apríl hafi 16 konur og börn látið lífið þar sem nákomnir karlar eru grunaðir um að hafa banað þeim. Þar af voru sjö konur myrtar af maka eða fyrrverandi maka en í þremur tilvikum er faðir grunaður um morð á börnum. Strax í upphafi annarrar viku útgöngubanns greindu fjölmiðlar frá níu dauðsföllum sem talið er að megi rekja til heimilisofbeldis og undir lok þeirrar viku voru þau orðin 12 talsins. Karen sem hefur gagnrýnt frásagnarmáta fjölmiðla um morðin fyrir það sem hún kallar „lazy reporting“ segir alveg ljóst að COVID-19 faraldurinn sé ekki ástæða þess að konur hafi verið myrtar, eins og umfjöllun gefi í skyn. Skýringar á því að karlar beiti konur ofbeldi sé að finna í stjórnsemi þeirra gagnvart þeim, forréttindahyggju og því að karlar trúi að þeirra hlutverk sé að ríkja yfir konum. Hún segir samfélaginu hollast að horfast í augu við þau viðhorf í menningunni sem búa að baki því að körlum finnist þeir eiga rétt á að brjóta gegn konum. Ragna Björk Guðbrandsdóttir, teymisstjóri Bjarkarhlíðar og sérfræðingur miðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis, hefur orðað það þannig að fólk sem beiti ofbeldi eigi mjög auðvelt með að nota ástandið í samfélaginu sem enn eitt vopnið gegn þolendum sínum.

Aukið ofbeldi og aukin byssusala

Í Bandaríkjunum eru merki um að lífshættulegt ofbeldi gegn konum og börnum sé að aukast samhliða þeim ráðstöfunum sem gerðar hafa verið vegna COVID – 19. Símtöl til lögreglunnar í New York vegna heimilisofbeldis hafa aukist um 20% síðan í lok mars og sala á skotvopnum tók kipp um landið allt. Rannsóknir sýna að sá sem hefur aðgang að byssu er líklegri til að nota hana til að ógna eða skjóta einhvern í fjölskyldunni heldur en óboðinn gest. Ofbeldismaður með byssu er allt að því fimm sinnum líklegri til að drepa einhvern í fjölskyldunni en sá sem á ekki byssu. Samkvæmt greiningu Huffington Post á tímabilinu 27. mars til 2. apríl, þegar stjórnir flestra fylkja mæltust til þess að fólk héldi sig heimavið, voru framin að minnsta kosti 19 morð eða morðtilraunir sem fylgt var eftir með sjálfsvígi. Í næstum öllum atvikum var um að ræða karl sem drap eiginkonu eða barn áður en hann tók líf sitt. Ekki er hægt að segja með vissu að þessi gerð af ofbeldi sé að aukast en alls voru framin 11 morð með sjálfsvígi sama tímabil árið 2017. Casey Gwinn sérfræðingur á sviði heimilisofbeldis í Bandaríkjunum áréttar að kórónavírus kreppan sé ekki að valda því að fólk verði ofbeldisfullt. En aðstæðurnar gætu ýtt undir áður hættulegt ástand.

„Maður undrast í raun á því að konan hafi lifað af og stundum er það bara slembilukka að hún hafi lifað af“

Sigþrúður Guðmundsdóttir framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins óttast að mikið verði að gera hjá þeim í náinni framtíð. „Maður undrast í raun á því að konan hafi lifað af og stundum er það bara slembilukka að hún hafi lifað af. Þær eru stundum teknar kyrkingartaki þar til að þær missa meðvitund, miklar limlestingar, eða fleygt úr út bíl á ferð eða niður stiga með lítil börn í fanginu. Það getur enginn stjórnað því hvernig slíkt ofbeldi endar,“ segir Sigþrúður um konurnar sem leita til athvarfsins. Hún segir að bæði fyrir og lengi eftir efnahagshrun árið 2008 þegar samfélagið gekk í gegnum álag og þrengingar hafi verið mjög mikið að gera hjá athvarfinu. Hún útskýrir að það sé í eðli heimilisofbeldis að fólk leiti sér ekki aðstoðar á meðan ástandið er sem verst. Sömu áhættuþættir og spá fyrir um aukið ofbeldi spá einnig fyrir um hindranir þegar kemur að því að slíta ofbeldissambandi. Andlegt ofbeldi sem konur eru beittar af maka markar djúp sár og skekkir sjálfsmyndina. Þannig stjórnar ofbeldismaðurinn því hvernig hlutirnir eru skilgreindir á heimilinu. Ragna Björg Guðbrandsdóttir teymisstjóri Bjarkarhlíðar hefur lýst miklum áhyggjum af þeim þolendum ofbeldis sem af einhverjum ástæðum geta ekki leitað sér hjálpar. Til dæmis konum af erlendum uppruna sem vita ekki hvert þær geta snúið sér.

Ofbeldi á heimili hefur alltaf alvarlegar afleiðingar fyrir börnin

Ólíkt því sem segja má um ofbeldi í nánum samböndum höfum við ekki mikla sértæka uppsafnaða þekkingu til að geta spáð með vissu um hvernig kóróna vírusinn mun haga sér í framtíðinni. Nú er árið 2020 og fimm ár síðan Bill Gates flutti TED hugvekjuna „The next outbreak? We are not ready“ um hvernig stjórnvöld heims ættu að búa mannkynið undir að takast á við næsta skæða heimsveirufaraldur. Aðstæður okkar í dag spyrja auðvitað ekki um það sem Bill Gates sá fyrir sér árið 2015 heldur það sem óhjákvæmilega horfir við okkur einmitt núna með þeirri prófraun og sársauka sem fylgir. 

Eftir að kórónaveirufaraldurinn hóf útbreiðslu sína fóru að berast frásagnir af meira og hættulegra ofbeldi gegn konum. Allt frá Brasilíu til Þýskalands, frá Ítalíu til Kína berast sögur af heimilisofbeldi í félagslegri einangrun, í sóttkví, samkomu- eða útgöngubanni. Sögur af því að vera kona eða barn og komast ekki af heimilinu þar sem stuðningsnetið þitt er rofið. Lífsreynslan af því hvernig sá sem beitir ofbeldi notar vá heimsins utan heimilisins til að ógna þér og stjórna daglegu lífi þínu heima hjá þér. Hvernig biðin eftir hjálp og skilnaði frá honum sem hefur valdið þér varanlegum áverkum á líkama og sál virðist eilíf af því samfélagið er allt stopp. Í Rio de Janairo fjölgaði neyðarsímtölum frá þolendum heimilisofbeldis í kjölfar vírusfaraldursins um 40-50%. Í Katalóníu jókst fjöldi neyðarsímtala vegna heimilisofbeldis um 20% og á Kýpur var aukning símtala í sambærilega neyðarsíma áætluð um 30% í vikunni eftir að fyrsta COVID smitið var staðfest þar. Á Ítalíu snarfækkaði neyðarsímtölum frá konum í heimilisofbeldi en í stað þess fjölgaði örvæntingarfullum textaskilaboðum og tölvupóstum frá konum sem læstu sig inni á klósetti eða földu sig til að senda ákall um hjálp. Í Valencia á Spáni var móðir myrt úti á götu fyrir framan börnin sín. Þann 6. apríl var sími Bjarkarhlíðar í Reykjavík rauðglóandi.

„Á tímum sóttvarna og samkomubanns er vert að minna á að fyrir sumar konur og börn getur heimilið reynst hættulegur staður“ skrifuðu talskonur Lífs án ofbeldis á Facebook – síðu hreyfingarinnar þann 15. mars. Þar undir voru birt símanúmer hjá Kvennaathvarfinu, Bjarkarhlíð og Bjarmahlíð á Akureyri. Þann 6. apríl stóð á veggnum: „Tvær konur hafa látist á heimilum sínum á síðustu vikum þar sem grunur er um saknæmt athæfi. Ofbeldi gegn konum er raunveruleg ógn á Íslandi. Tryggja þarf öryggi þeirra á tímum samkomubanns“. Skilaboðin voru hvatning til yfirvalda um að grípa til ráðstafana til að tryggja öryggi kvenna og barna sem lifa við ofbeldi á tímum sóttvarna og samkomubanns. Þann 22. apríl hafði þessum skilaboðum verið deilt 1.200 sinnum á Facebook og þau náð til 139.977 manns.

Á fundi almannavarna þann 7. apríl ávarpaði framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins þjóðina og hvatti fólk til að koma börnum á ofbeldisheimilum til hjálpar. Hún minnti þar á að börn hafa ekki val um sínar lífsaðstæður. Þann 8. apríl áréttar Andrés Proppé Ragnarsson forsvarsmaður Heimilisfriðar í pistli á Vísi.is, að hvaða form sem ofbeldi tekur á sig á heimili fólks sé það alltaf þannig að ef börn eru á heimilinu verða þau fyrir alvarlegum afleiðingum. Það sé þekkt að jafnvel börn í móðurkviði verða fyrir alvarlegum afleiðingum þess að foreldrar þeirra séu að beita ofbeldi með öllu því skelfilega sem fylgir á heimilinu sem á að vera griðarstaður. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu óttast að heimilisofbeldi fari vaxandi í ljósi stöðunnar í samfélaginu og hvetur almenning til að kynna sér viðvörunarmerkin og halda vöku gagnvart þeim sem kunna að vera í ofbeldishættu. Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri hefur staðfest að tilkynningum um heimilisofbeldi hafi fjölgað að undanförnu og að á fundi ríkislögreglustjóra á Norðurlöndum hafi allir lýst yfir áhyggjum af því að heimilisofbeldi væri að aukast. Í þessu samhengi hefur hún bent á að síðan faraldurinn braust út hafi tvær konur látið lífið á heimilum sínum og í báðum tilvikum leikur grunur á að nákominn hafi ráðið þeim bana.

Róttækra aðgerða stjórnvalda var þörf fyrir COVID-19

Fram kemur í niðurstöðum rannsóknar Drífu Jónasdóttur og félaga, á gögnum frá Landspítalanum á tímabilinu 2004 til 2015, að kona leitar að meðaltali annan hvern dag þangað með áverka eftir heimilisofbeldi af hálfu maka eða fyrrverandi maka. Rannsóknin sem birt var í Scandinavian Journal of Public Health þann 20. apríl sýnir að nýkomur á sjúkrahús vegna áverka eftir heimilisofbeldi voru 1454 en þar af voru 92,6% komur á bráðamóttöku. 37,8% kvennanna leituðu aftur á spítalann vegna nýrra áverka. Konurnar voru með áverka staðsetta á efri líkama, andliti, höfði og hálsi og efri útlimum eftir rispur og skrámur, hnefahögg, hrindingar, spörk og tilraun til kyrkingar. 

Samkvæmt skráningu ríkislögreglustjóra voru staðfest heimilisofbeldismál hjá lögregluembættum landsins talin 957 árið 2019. Grunaður eða kærður var í samtals 68% tilvika maki eða fyrrum maki. Samkvæmt lögreglunni á höfuborgarsvæðinu komu tvö heimilisofbeldismál að jafnaði upp á dag árið 2019 og báru 20 þolendur heimilisofbeldis neyðarhnapp frá lögreglu undir árslok.Tölur frá velferðarsviði Reykjavíkurborgar árin 2015 – 2018 um útköll vegna heimilisofbeldis sýna að í miklum meirihluta mála er gerandi karl en brotaþoli kona.

Samkvæmt tölum úr málaskrá lögreglu voru samtals skráð 2.700 brot gegn börnum undir 18 ára aldri á árunum 2007-2016, það eru að meðaltali 270 brot á ári. Brotaþolar undir 18 ára aldri voru samtals 2.463 á sama tímabili og því urðu í sumum tilvikum brotaþolar endurtekið fyrir brotum. Kynferðisbrot 1405, líkamsárás eða meiðingar 1295, einnig talin brot gegn 218. gr. b. um ofbeldi gegn nákomnum.

Róttækra aðgerða stjórnvalda til að sporna við ofbeldi gegn konum og börnum var þörf fyrir COVID- 19 kreppuna.  Nú eru skipulagaðar aðgerðir nauðsynlegar og krefjast þess að þær séu útfærðar í samræmi við okkar bestu sérfræði- og meðferðarþekkingu. Aðgerðir stjórnvalda og inngrip þurfa að vera í samræmi við raunveruleika og aðstæður kvenna og barna sem búa við ofbeldi eða ógn um ofbeldi. 

„Við erum öll Barnavernd“

Hreyfingunni Líf án ofbeldis var hrundið af stað í október síðastliðnum meðal annars vegna endurtekinna frásagna þolenda ofbeldis í fjölskyldum síðustu áratugi, af því hvernig yfirvöld bregðast brotaþolum. Hópurinn hefur starfað að því að upplýsa ráðamenn og samfélagið um að konur og börn sem þolað hafa ofbeldi af hálfu föður geta ekki treyst á vernd gegn ofbeldi í ákvörðun sýslumanna og dómara um forsjá- og umgengni jafnvel þó hún sé með aðkomu barnaverndaryfirvalda. Dómsmálaráðherra hefur nú lýst yfir áhyggjum af auknu heimilisofbeldi og segir brýnt að nauðsynlegt sé að tryggja öryggi þeirra sem búa við heimilisofbeldi. Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra hefur biðlað til almennings, nágranna og allra annarra aðstandenda að vera meðvituð, hafa augun opin og huga sérstaklega að börnum sem við höldum að búi við erfiðar aðstæður og minnt á að „við erum öll Barnavernd“. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir mikilvægt að stjórnvöld bregðist við hættu á auknu heimilisofbeldi.

„Hvað í fokkanum er ríkisstjórnin að gera fyrir þolendur til þess að berjast gegn kynbundnu ofbeldi?“

„Hvað í fokkanum er ríkisstjórnin að gera fyrir þolendur til þess að berjast gegn kynbundnu ofbeldi?“ spurði aðgerðarsinni á fyrstu vikum samkomubannsins.  Er það von að fólk spyrji þegar Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra kynnir tvö mál á dagskrá sem bæði vöktu mikinn óhug meðal þolenda heimilisofbeldis og þeirra sem standa vörð um velferð barna. Aukið aðgengi að áfengi á heimili landsins með netverslun og frumvarp um jafna búsetu barna og samstarf fráskilinna.

Aðgerðir stjórnvalda sem ekki eru valdeflandi fyrir konur og börn viðhalda ofbeldinu en vinna ekki gegn ofbeldinu. Kannski erum við þá komin að kjarna málsins. Við búum í samfélagi sem þar sem stjórnskipulagi er viðhaldið með valdbeitingu eða hótun þar um. Það er meðal annars þess vegna sem ofbeldi gegn konum er einkenni á samfélögum undir þessari gerð af stjórnskipulagi.  Aukin útbreiðsla kynbundins ofbeldis mun ekki færa okkur hjarðónæmi gegn því en samfélagið mun halda áfram að veiklast. Það verða aldrei bóluefni til gegn ofbeldi karla á konum. Engin vörn án þess að viðteknum hugmyndakerfunum verði bylt. Til þess að hugmyndir losi takið á tilveru okkar þurfum við fyrst að draga þær í efa. Væri það ekki góð byrjun að stjórnvöld réru öllum árum að því að gera karla sem beita ofbeldi ábyrga gjörða sinna og sæju til þess með sinni stjórnskipulegu valdbeitingu og úrskurðarvaldi að börnum og konum sé hlíft við samskiptum við þá þartil þeir láta af ofbeldi í samskiptum? Ef þeir þá láta af ofbeldinu, það er frekar augljóst að barnaníðingar og karlar með andfélagslega persónuleikaröskun eiga ekki að vera með börn í sinni umsjón. Hvað með einskonar karlaathvarf, göngudeild og almenna meðferð fyrir karla sem beita konur og börn ofbeldi? Eða eru ekki vissir um hvort þeir séu að beita ofbeldi? Ef marka má alþjóðlega könnun Gallup eru Íslendingar flestir ánægðir með frammistöðu íslenskra stjórnvalda í viðureigninni við COVID-19 faraldurinn. Erum við þá kannski núna tilbúin til að sleppa tökum á gamalli heimsmynd til að bjarga mannslífum?  Kannski fyrir næstu kosningar ? Are we ready...yet?

Previous
Previous

Er réttarkerfið í stakk búið til að gæta hagsmuna barna í forsjármálum?

Next
Next

Gaslýsing gerenda