Bíða stjórnvöld þess að barn sé myrt?

Eftirfarandi grein, eftir Gabríelu Bryndísi Ernudóttur og Sigrúnu Sif Jóelsdóttur, birtist upphaflega í Stundinni þann 28. október 2019:

Í nýlegu svari frá Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra, við fyrirspurn Andrésar Inga Jónssonar þingmanns, um skráningu á heimilisofbeldi hjá lögregluembættum kemur meðal annars fram að af þeim konum sem myrtar voru á Íslandi á árunum 1999–2018 var helmingur þeirra drepinn af maka eða fyrrverandi maka. Í 9% tilvika þar sem karlar voru drepnir var gerandinn maki eða fyrrum maki. 

Þessar tölur eiga sér samsvörun í þeim raunveruleika sem birtist meðal annars í alþjóðarannsóknum árið 2017 þar sem kemur fram að meira en helmingur allra þeirra kvenna sem myrtar voru á heimsvísu (58%) voru drepnar af maka eða af fjölskyldumeðlim. Um það bil 82% þeirra sem myrt eru í nánu sambandi á heimsvísu eru konur.

Konur eru í aukinni ofbeldishættu þegar þær reyna að losa sig úr ofbeldissamböndum og ofbeldismenn nýta sér tiltækar aðferðir til að ná höggþunga á þolendur og viðhalda ógnarstjórnun. Skelfilegustu dæmin um þetta eru þegar menn myrða börnin sín í þessum tilgangi. Börn mæðra sem flýja úr ofbeldissamböndum eru í stóraukinni ofbeldishættu. Hættan á barnamorði föður er mest þegar móðirin slítur sambandinu. Hins vegar heyrir það til undantekninga að mæður drepi börn sín til að hefna sín á barnsfeðrum sínum. Ekki þarf að leita langt út fyrir landsteinana til að finna mál sem enduðu með hefndarmorðum feðra á börnum sínum. 

Ofbeldi fullkomnað með morði

Á árunum 1980–2015 voru 125 börn í Danmörku myrt af foreldrum sínum. Morðingjarnir voru feður í 75% tilvika. Erlendar rannsóknir á morðum þar sem foreldrar hafa myrt börn sín marka skýran kynjamun á ástæðum og aðdraganda að barnamorði. Mæður sem drepa eru líklegri til að hafa myrt yngri börn en feður og vera sjálfar ungar, einstæðar með fleiri en eitt barn og í slæmri félagslegri stöðu. Þær eru einnig mun líklegri en feður til að hafa verið í geðrofi þegar morð var framið. Feður drepa oftar í hefndarskyni, beita harkalegra ofbeldi við morðin og hafa oftast beitt börnin ofbeldi áður en morðið er framið. Stutt leit á vefnum um dönsk börn sem hafa verið myrt af foreldrum sínum birtir einmitt þetta mynstur. 

TV2 í Danmörku fjallaði nýlega um morð feðra á börnum sínum. Þar kemur fram að í langflestum tilfellum hefur ofbeldismaðurinn hótað lífláti eða sjálfsvígi áður en morðið er framið. Í umfjöllun kemur fram að menn sem myrða börn sín eru oftast með truflun í persónuleika sem einkennist af því að þeir upphefja sjálfa sig á kostnað annarra og hafa tilhneigingu til að valta yfir aðra til að fá sínu framgengt. Þeir eru hins vegar oft góðir í því að fela ofbeldishegðun sína fyrir fólki þegar þeim hentar og koma gjarnan vel fyrir. Menn með þessi persónuleikaeinkenni líta ekki á börnin sem einstaklinga með eigin þarfir, skoðanir og tilfinningar, heldur sem einhvers konar stjórntæki eða jafnvel sem framlengingu á sjálfsmynd sinni. Þegar aðdragandi barnamorða er skoðaður má vel greina ýmiskonar viðvörunarmerki en í mörgum tilvikum hefur samfélagið kosið að líta kerfisbundið framhjá þeim og þar með að bregðast þessum börnum. 

Feður drepa oftar í hefndarskyni, beita harkalegra ofbeldi við morðin og hafa oftast beitt börnin ofbeldi áður en morðið er framið.

Í viðtali sem birtist í The Guardian þann 10. október síðastliðinn lýsir Davina James-Hanman, sem barist hefur fyrir vernd þolenda heimilisofbeldis í Bretlandi um langt skeið, meðal annars reynslu sinni úr samtölum við menn sem hafa myrt kærustur, barnsmæður eða eiginkonur. Hún lýsir morðingjunum sem viðkunnanlegum og þeir komi gjarnan vel fyrir, en það er að hennar mati einmitt þannig sem þeir hafi komist upp með að beita konur ofbeldi. Menn sem sakfelldir eru fyrir að drepa maka eða fyrrum maka séu vanalega í mikilli vörn og afneitun gagnvart ábyrgð á verknaðinum og sækjast eftir samþykki á því að konan hafi á einhvern hátt kallað það yfir sig að missa lífið. Í Bretlandi eru karlmenn í yfirgnæfandi meirihluta þeirra sem drepa maka eða fyrrum maka og tíðni slíkra morða er að meðaltali þrjú á viku.  

Aðildarríki Sameinuðu þjóðanna bregðast þolendum heimilisofbeldis í skilnaðarmálum

Alþjóðasamfélagið telur endurtekið mynstur í réttarákvörðun þjóðríkja um forsjá og umgengni áhyggjuefni þar sem ofbeldi gegn konum í nánum samböndum sé ekki gefið nauðsynlegt vægi. Hópur sérfræðinga um kvenréttindi á vegum Sameinuðu þjóðanna ályktaði um stöðuna og kynnti yfirlýsingu um efnið á ráðstefnu á vegum Evrópuráðsins (e. Council of Europe) þann 24. maí síðastliðinn í Strasbourg í Frakklandi. Þar kom fram að hegðunarmynstur réttarkerfa afhjúpuðu undirliggjandi mismunun gegn konum og hvernig skaðlegar staðalímyndir um konur eru notaðar gegn þeim í málum barna þeirra.  Áréttað var við aðildarríki að halda þyrfti fast í meginreglu um bestu hagsmuni barnsins en einnig að verulega þurfi að rétta hlut kvenna í forsjár- og umgengnismálum sem oftar en ekki er mætt með vantrausti þegar þær greina frá ofbeldi. Þá er það gagnrýnt að þrátt fyrir sögu föður um ofbeldi gegn móður og þar með aukna ofbeldishættu fyrir barn sé ofbeldissögu sjaldnast gefið vægi í réttarákvörðun aðildarríkja um umgengni og forsjá barna. 

Mál Jessicu Lenahan og dætra hennar þriggja sem bjuggu í Colorado-fylki Bandaríkjanna og höfðu flúið heimilisofbeldi er álitið fordæmisgefandi í þessu samhengi. Árið 1999 nam faðir börnin á brott og myrti þau. Dómari hafði fyrr sama ár úrskurðað manninn í nálgunarbann gagnvart móður og börnum vegna sögu um heimilisofbeldi. Kvöldið sem faðirinn nam börnin á brott hringdi Jessica níu sinnum í lögregluna, tilkynnti um brot á nálgunarbanni og lýsti áhyggjum sínum af fyrirætlan barnsföðurins. Lögreglan brást ekki við áhyggjum Jessicu og brottnámið endaði með því að faðirinn hóf skothríð á lögreglustöðina í Castle Rock og var skotinn til bana af lögreglunni. Börnin þrjú fundust látin í bíl hans. 

Í máli Lenahan gegn ríkinu í hæstarétti fjallaði mannréttindaráð (e. Inter-American Commission on Human Rights, IACHR) um skyldu Bandaríkjanna í heimilisofbeldismálum, um skyldu ríkisins til að vernda þolendur og tengsl ofbeldis gegn konum í nánum samböndum við ofbeldi á börnum í skilnaðarmálum. Í ágúst árið 2011 komst ráðið að þeirri niðurstöðu að fulltrúar ríkisins hefðu brugðist skyldu sinni gagnvart Lenahan og alfarið brugðist í að gæta réttar barnanna í skilnaðarmálinu. Málið er fordæmisgefandi fyrir önnur þjóðríki og er þetta í fyrsta sinn í sögunni sem mannréttindamál gegn bandarískum yfirvöldum fellur þolendum heimilisofbeldis í vil.

Fleiri gagnrýnisraddir hafa heyrst frá alþjóðasamfélaginu. Árið 2013 gagnrýndi nefnd á vegum Evrópuþingsins (e.The European Parliament's Committee on Petitions) lagaframkvæmd danskra yfirvalda í fjölskyldurétti harðlega, eftir athugun, þar sem kom í ljós að mæður voru í stóraukinni hættu á að sæta refsivist fyrir að vernda börn sín frá feðrum sem beittu þau ofbeldi. Nefndin gagnrýndi að börn væru þvinguð af stjórnvöldum í umgengni eða jafnvel fulla forsjá feðra sem beittu börnin kynferðisofbeldi eða öðru ofbeldi. Árið 2016 sendu Sameinuðu þjóðirnar frá sér harða gagnrýni á forsjárlög Dana vegna þvingunar barna inn í ofbeldishættu en einnig á grunni Kvennasáttmálans (e. CEDAW Convention on the Elimination of All Forms of Discrimination Against Women) þar sem sýnt þótti að í löggjöfinni fælist hörð mismunun gegn konum.  

Verndari barns líklegri til að fara í fangelsi en ofbeldismaðurinn

Flestar þær mæður sem voru fangelsaðar í Danmörku fyrir að hindra umgengni við föður fyrsta árið eftir að lögin um jafna foreldraábyrgð (e. Parental responsibility Act) tóku gildi árið 2007, hafa í dag fullan forsjárrétt. Börnin hitta ekki feður sína vegna þess að yfirvöldum þykir sýnt að það sé börnunum fyrir bestu. 

Árið 2013 var gerð rannsókn hjá Syddansk Universitet meðal mæðra sem höfðu þolað ofbeldi og eltihrellingu af hálfu barnsföður. Af 200 mæðrum höfðu 7 setið í fangelsi fyrir að vernda börn sín. Á árunum 2013-2014 höfnuðu aðrar sjö mæður, af þeim mæðrum í rannsókninni sem voru þolendur ofbeldis og eltihrellingar, í fangelsi fyrir að vernda börn sín. Undir lögunum um jafna foreldraábyrgð (2007) hafa dönsk yfirvöld heimild til að setja móður í fangelsi í allt að 6 mánuði þegar hún neitar að senda barn í umgengni við föður án aðkomu dómara eða dómsúrskurðarnefndar. Ofbeldismaður telst aftur á móti saklaus þar til sekt er sönnuð í réttarkerfinu og umgengni er ekki stöðvuð til að fyrirbyggja ofbeldi gegn barni þar sem höfuðregla laganna er að börn eigi jafnan rétt til samveru með báðum foreldrum. 

Niðurstaða rannsóknarinnar var sú að 7% af 200 konum sem höfðu verið beittar ofbeldi enduðu í fangelsi. Dómur fellur í 0,1% sifjaspellsmála. Þetta þýðir að móðir sem verndar barn frá ofbeldi er 70 sinnum líklegri til að fara í fangelsi en faðir sem beitir barnið ofbeldi. Tíminn leiddi í ljós að áhyggjur mæðranna sem settar voru í fangelsi áttu fullan rétt á sér.  

Móðir sem verndar barn frá ofbeldi er 70 sinnum líklegri til að fara í fangelsi en faðir sem beitir barnið ofbeldi.

Ein þessara mæðra sem sat í dönsku fangelsi er okkur vel kunnug en það er Hjördís Svan sem afplánaði 18 mánaða dóm fyrir að sækja börnin sín til föður. Hjördís hefur í dag fulla forsjá yfir börnunum sem faðirinn samþykkti gegn því að móðirin gæti aldrei krafist peninga af hans hálfu ef dæturnar vanhagaði um eitthvað. Börnin hafa nú sjálf skrifað Alþingi umsögn við frumvarp Sjálfstæðisflokksins um að tálmun á umgengni verði gerð refisverð þar sem þær lýsa því hvernig móðir þeirra gerði allt til að forða þeim frá ofbeldi.

Það voru íslensk barnaverndaryfirvöld sem tryggðu aðkomu ríkisins að því að börn Hjördísar Svan voru sótt árið 2012 af fimm einkennisklæddum lögreglumönnum, víkingasveit og lögreglustjóra í hátíðarbúningi á grunni gamallar aðfararbeiðni, og flutt með valdi til föður sem hafði í síðustu samveru veitt barni sínu áverka eins og staðfest var af læknum. Íslensk barnaverndaryfirvöld voru með gögn í höndum um ofbeldið en gripu ekki til neinna ráðstafana í samræmi við það heldur sendu börnin með bréf til danskra yfirvalda um að þyrfti að skoða ofbeldið þar ytra, sem var aldrei gert. Þáverandi forstöðumaður Barnaverndarstofu tryggði aðkomu íslenskra barnaverndaryfirvalda að því að þessu var framfylgt gagnvart börnunum sem voru í íslenskri lögsögu og alfarið upp á íslenska barnavernd og vernd stjórnvalda komin. Íslensk barnaverndaryfirvöld brugðust í að tryggja vernd barnanna gegn ofbeldi. 

Íslensk yfirvöld á skjön við lög  

Í nýlegu viðtali við Heiðu Björg Pálmadóttur, forstjóra Barnaverndarstofu, við Stundina segir hún meðal annars að dæmdur barnaníðingur sem brotið hafi gegn öðru barni en því sem nú er á heimili hans sé ekki endilega álitinn hættulegur barninu á heimilinu. Þar segir hún einnig að grunnskylda barnaverndar sé að styðja einstaklinga í sínu uppeldishlutverki þannig að þeir geti verið með börnin áfram og að það sé stjórnarskrárbundinn réttur sem einnig er bundinn í mannréttindasáttmálann. Þessi skoðun lýsir ekki skilningi almennings á tilgangi barnaverndar og er heldur ekki í samræmi við orðalag núgildandi barnalaga um ákvörðun um inntak forsjár og umgengni. Í lögum sem samþykkt hafa verið á Íslandi eru grundvallarmannréttindi barna um að vera vernduð frá ofbeldi í forgangi umfram réttindi foreldra til umgengni við barn sitt. 

Í barnalögum, nr. 76/2003, var vægi ofbeldis aukið við ákvörðun forsjár og umgengni. Samanber 34. og 47. gr. laganna þar sem lögfest var að við ákvörðun um forsjá eða umgengni beri að líta til þess hvort hætta sé á að barnið, foreldri eða aðrir á heimili barnsins hafi verið eða muni verða beitt ofbeldi.  

Þetta þýðir að við ákvarðanir um líf barna er það barnið sem á að njóta vafans um ofbeldishættu. „Saklaus uns sekt er sönnuð“ á ekki við í málum barna og engin krafa er gerð um að menn séu dæmdir fyrir ofbeldi til þess að hagsmunir barna séu varðir. Samkvæmt núgildandi barnalögum ber að taka tillit til gagna og vitnisburða sem sýna fram á að ofbeldi hafi átt sér stað eða geti átt sér stað. 

„Saklaus uns sekt er sönnuð“ á ekki við í málum barna.

Í viðtali í Mannlega þættinum á Rás 1 þann 15. október síðastliðinn segir forstjóri Barnaverndarstofu: „Um leið og við horfum fram á það að samhliða ásökun um ofbeldi liggur fyrir að það eru deilur milli foreldra um samskipti við barnið þá er orðið mjög erfitt að fá botn í það hvað er í raunhæft í ásökunum um ofbeldi og sérfræðingarnir í Barnahúsi til dæmis hafa talað mikið um það að það sé mjög erfitt að fá í rauninni hið rétta fram í skýrslutökum á börnum eða rannsóknarviðtölum þegar liggur fyrir að til dæmis annað foreldrið hefur verið útilokað frá samskiptum við barnið í einhvern tíma.“ 

Þetta viðhorf lýsir alvarlegri hlutdrægni forsvarskonu Barnaverndarstofu í málum er varða ofbeldi á börnum, þar sem hún gefur í skyn að börn fráskilinna foreldra séu á einhvern hátt ótrúverðugri í frásögn sinni af ofbeldi en önnur börn. Hunsun yfirvalda á ofbeldi í nánum samböndum í forsjár- og umgengnismálum hefur leitt til þess að börnum er stefnt í alvarlega ofbeldishættu, jafnvel lífshættu. Í reynd gengur slík framkvæmd þvert á tilgang íslenskra laga og þvert á alla þá mannréttindasáttmála sem við höfum skuldbundið okkur til að fylgja. 

Ísland gagnrýnt fyrir að virða ekki mannréttindi barna

Þann 26. apríl 2018 afhenti þáverandi félags- og jafnréttismálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason, staðfestingarskjal um fullgildingu Íslands á samningi Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn heimilisofbeldi og ofbeldi á konum. Fullgilding samningsins af hálfu Íslands er í samræmi við efni stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og áherslur hennar í jafnréttismálum þar sem sérstaklega er fjallað um aðgerðir til að útrýma kynbundnu ofbeldi. Í V. kafla samningsins kveður á um eftirfarandi: 

31. gr. – Forsjá, umgengnisréttur og öryggi 

1. Samningsaðilar skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir, með lagasetningu eða öðrum hætti, til að tryggja að tekið sé tillit til ofbeldisbrota sem falla undir gildissvið samnings þessa við ákvörðun forsjár og umgengnisréttar við börn. 

2. Samningsaðilar skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir, með lagasetningu eða öðrum hætti, til að tryggja að nýting umgengnis- eða forsjárréttinda stefni ekki réttindum og öryggi þolenda eða barna í hættu. 

Í skýrslu um svokallaðan barnaréttarstuðul (e. Kids Rights Index) sem meðal annars var deilt  á Facebook-síðu utanríkisráðuneytisins þann 16. maí síðastliðinn, með orðunum „hvergi í veröldinni er betra að vaxa úr grasi en á Íslandi samkvæmt barnaréttarvísitölunni Kids Rights Index“ eru öll aðildarlönd í útreikningi barnaréttarstuðuls, þar með talið Ísland, gagnrýnd sérstaklega fyrir að mannréttindagæslu barna í réttarákvörðun um líf þeirra sé verulega ábótavant. Þá er mælst til þess að dómarar og aðrir fulltrúar réttindagæslu barna fái sérstaka þjálfun og leiðsögn um hvernig hagsmuna barna er best gætt í ákvörðun um líf þeirra. Í skýrslunni kemur einnig fram að í öllum aðildarlöndum sé virðingu fyrir sjónarmiðum barna í ákvörðun sem varða hagi þeirra og líf einnig verulega ábótavant. 

Ítrekuð fjölmiðlaumfjöllun um umgengnis- og forsjármál þar sem börn eru þvinguð í umgengni við ofbeldismenn og barnaníðinga er merki um alvarlegar brotalamir í laga- og réttarframkvæmd um þessi mál. Hreyfingin Líf án ofbeldis stendur fyrir undirskriftarsöfnun í október þar sem þess er krafist að íslensk yfirvöld axli stjórnunarlega ábyrgð og fylgi þeim áherslum sem sammælst hefur verið um í íslenskum lögum og virði skuldbindingar sínar til að standa vörð um mannréttindi þolenda heimilisofbeldis og kynferðisofbeldis. Við megum teljast heppin að barn hafi ekki verið myrt í hefndarskyni á Íslandi, en þurfum við að bíða eftir því að það gerist til þess að börn séu raunverulega vernduð gegn ofbeldi á Íslandi? 

Líf án ofbeldis minnir á að í athugasemdum með frumvarpi barnalaga kemur fram að líta verði á ofbeldi í víðum skilningi og gagnrýna hvernig mæðrum er gert ókleift að vernda börn gegn ofbeldi þegar þær eru ekki teknar trúanlegar og áhyggjur þeirra um ofbeldi eru notaðar gegn þeim í ákvörðun stjórnvalda, þrátt fyrir að fyrirliggjandi gögn sýni fram á ofbeldi gegn þeim og börnunum.  

Þetta samræmist ekki lögum. 

Previous
Previous

„Leiðinleg umgengnismál“

Next
Next

Frásagnir af ofbeldi kallaðar upplifun