Frásagnir af ofbeldi kallaðar upplifun

Síðastliðinn sunnudag birtist á vef mbl.is viðtal við þær Eyrúnu Guðmundsdóttur sviðsstjóra og Þórdísi Rúnarsdóttur sérfræðing í málefnum barna, báðar starfandi hjá fjölskyldusviði Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu. Þolendum ofbeldis er mörgum hverjum brugðið yfir ummælum sem látin voru falla í viðtalinu en þau bera merki um ákveðið þekkingarleysi á aðstæðum þolenda ofbeldis í fjölskyldum. Af tilsvörunum má einnig ráða að starfskonur Sýslumannsembættisins álíti að gagnrýni hreyfingarinnar Líf án ofbeldis (LÁO), á málavinnslu sýslumanns, sé fyrst og fremst á misskilningi byggð.  Ekki er liggur fyrir hvort viðmælendur stóðu fyrir svörum í umboði eða fyrir hönd Sýslumannsembættisins á höfuðborgarsvæðinu en leitað hefur verið staðfestingar á því við Þórólf Halldórsson sem gegnir embætti sýslumanns. Viðtalið kallar á fleiri spurningar en það svarar.   

Mótsagnakennt orðalag  

Í viðtalinu segir Þórdís að ásakanir um ofbeldi séu teknar alvarlega en áréttar að það sé mjög mismunandi hvað fólk leggur í orðið ofbeldi. Orðalag Þórdísar verkar mótsagnakennt. Með hvaða hætti eru ásakanir um ofbeldi teknar alvarlega þegar það er mismunandi hvaða merkingu fólk leggur í orðið ofbeldi? Hún brýnir að sú upplifun sem fólk lýsir af ofbeldi sé hvorki rengd né rökrædd en telur svo upp dæmi af ofbeldisbrotum sem teljast alvarleg í skilningi barnaverndar- og barnalaga eða gætu talist saknæm í skilningi almennra hegningarlaga. En hvaða verklagsreglur eiga við í sáttameðferð þar sem fólk greinir frá andlegu-, líkamlegu-, fjárhagslegu-, kynferðislegu-, stafrænu og félagslegu ofbeldi, eins og Þórdís nefnir dæmi um? 

Þórdís segir að sáttamaðurinn þurfi að getað rúmað tvo sannleika jafnvel þó þeir séu andstæðir og talar um „upplifun“ þolenda af ofbeldi. Sem sagt, Þórdís telur að fjalla eigi um reynslu brotaþola af hlutlægum atvikum sem huglæga upplifun í ágreiningsmáli. Þessi nálgun á sáttamiðlun hlýtur að gera hlutlægt mat á áhrifum ofbeldis á hagsmuni barns nánast útilokað. 

Samkvæmt reglum sem settar eru til bráðabirgða um sáttameðferð á grunni barnalaga ber viðkomandi fulltrúa að tilkynna, samkvæmt ákvæðum barnaverndarlaga, til barnaverndaryfirvalda ef barn býr við óviðunandi uppeldisaðstæður eða verður fyrir ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi. Ekki er ljóst af svörum Þórdísar hvort það er gert. Stundin hefur hinvegar greint frá því hvernig Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu og Sýslumaðurinn á Suðurlandi skilgreina umgengnistálmanir sem ofbeldi gegn börnum og senda barnaverndarnefndum tilkynningar um slíkt sem ofbeldi þegar dagsektarúrskurður er kveðinn upp. Þetta er gert í málum þar sem móðir hefur ásakað föður um alvarlegt ofbeldi en það hefur ekki leitt til ákæru eða dóms. Orðalag Þórdísar í viðtalinu er að „raunveruleg tálmunarmál eru mjög fá“. 

SJÁ EINNIG

Dagsektarúrskurður bendi til „vanvirðandi háttsemi“ móður gegn barni

Síðar í viðtalinu talar Þórdís eins og að hlutverk sáttamannsins í samtali á milli þolanda og geranda feli í sér nokkurskonar virka atferlismótun á hegðun geranda gagnvart þolanda:  „Hans hlutverk er að reyna að stýra því þannig það sé uppbyggilegt og ferlið ýti undir breytingu á hegðun“. Þá segir hún að samtalið geti þannig stuðlað að því að gerandinn fái innsæi í það hvernig hegðun hans hafi haft áhrif á þolanda og átt þátt í að skapa núverandi aðstæður.  Hér er litið á heimilisofbeldi sem ágreiningsefni en ekki brot og sáttamiðlun er lýst sem einhverslags betrunarferli fyrir geranda.  En er það hlutverk sáttaaðila sýslumanns að móta ofbeldishegðun sem gæti stjórnast bæði af gáleysi og ásetningi gagnvart brotaþola?

Síðan í október hefur LÁO birt umfjöllun um fjölda mála, atvikasögur og brot úr gögnum sem lýsa ofbeldi í fjölskyldum. Alvarleiki þessara mála ætti ekki að dyljast neinum sem fylgst hefur með en í dag eru þau orðin 3000 talsins sem fylgja Facebook síðu hópsins. Fulltrúar sýslumanns ættu ekkert að þurfa velkjast í vafa um skilgreiningar á ofbeldi eða láta eins og hér sé um að ræða tilfallandi upplifun einstaka aðila. Ofbeldi er vel skilgreint til að mynda í flokkunarkerfi barnaverndar og við hvetjum fulltrúana til að kynna sér það. 

Kallar frásagnir barna „sjálfsprottna sjálfsbjargarviðleitni“ og ímyndun

Þórdís segir að ósk eða afstaða barns geti „átt rætur í tillitssemi gagnvart umönnunaraðila sínum og þannig um leið verið sjálfsprottin sjálfsbjargarviðleitni“, að það sé þekkt að börn geta ímyndað sér hluti sem eru jafnvel verri en raunveruleikinn og að það geti aukið álag á barnið. Hún nefnir svo að takmörkuð umgengni geti verið jákvæð jafnvel þó foreldri glími við erfiðar aðstæður. Rétt er að benda á að LÁO hefur aldrei haldið því fram að erfiðar aðstæður foreldra ættu að vera forsenda fyrir því að barn njóti ekki umgengni við það foreldri.  Snúið er að heimfæra hugmyndafræði Þórdísar á aðstæður barns í ofbeldi enda væri vafasamt að halda því fram að hugsanleg ímyndun barns um ofbeldi geti verið barninu skaðlegri en reynsla barnsins af ofbeldinu. 

Hér gefur Þórdís samt í skyn að börn sem greina frá ofbeldi séu, í sjálfsprottinni sjálfsbjargarviðleitni sinni, að ljúga til um eða ímynda sér ofbeldi sem þau hafa lent í, til að sýna hinu foreldri sínu tryggð. Þetta er fáheyrt en hitt er vel þekkt að börn sem beitt eru ofbeldi af foreldri hlífa geranda sínum við því að segja frá, þar sem barnið er oft vel meðvitað um hvað það gæti haft í för með sér fyrir það foreldri. Orð Þórdísar gefa til kynna að hún trúi ekki öllum börnum sem segja frá ofbeldi. Hvaða börn eru þá talin vera í sjálfsprottinni sjálfsbjargarviðleitni þegar þau segja frá ofbeldi? Og hvaða börnum á að trúa þegar þau segja frá ofbeldi? Getur verið að þessi orð Þórdísar sé hennar eigin sjálfsprottna sjálfsbjargarviðleitni til að breiða yfir sannleikann? 

„Krefjandi og erfiðar“ spurningar sýslumanns

Í viðtalinu er haft eftir Eyrúnu að í úrskurðarferli beri sýslumanni að rannsaka og leiða í ljós þau atvik máls sem hafa áhrif við ákvarðanatöku um umgengni. Hluti af rannsókn máls geti þannig verið að spyrja krefjandi og erfiðra spurninga jafnvel þó að málin séu svo viðkvæm sem raun ber vitni. Hér virðist Eyrún vera að vísa til rannsóknarreglu stjórnsýslunnar um fullkönnun mála sem skýtur skökku við í þessu samhengi þar sem Sýslumannsembættið hefur verið gagnrýnt hvað harðast fyrir það að framlögð gögn og upplýsingar um heimilisofbeldi eða kynferðisbrot gegn barni hafi ekki fengið vægi í úrskurðarferlinu. Höfnun gagna við úrvinnslu mála má hæglega flokka sem brot gegn rannsóknarreglu stjórnsýslulaga sem segir að stjórnvald skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. 

SJÁ EINNIG

Barnahús taldi föður hafa brotið gegn börnum en ráðuneytið vill kanna hvort afstaða þeirra litist af „neikvæðu viðhorfi móður“

Ef Eyrún vísar ekki til hefðbundinnar stjórnsýslu hér, er orðalagið í besta falli villandi og gefur í skyn að sýslumaður fjalli á einhvern skipulegan hátt um hvernig ofbeldi hefur eða hefur ekki atvikast. Það er ekki hlutverk sýslumanns að rannsaka eða spyrja þolendur ofbeldis „krefjandi og erfiðra spurninga“ í úrskurðarferlinu. Eins og Stundin hefur greint frá og fram hefur komið á síðu LÁO eru dæmi þess að sýslumaður spyrji börn erfiðra spurninga í yfirheyrslustíl að hætti rannsóknarlögreglu, þegar kanna á viðhorf barns til umgengni. Þetta er gert jafnvel þó niðurstaða úr Barnahúsi liggi fyrir um kynferðisbrot föður og skýra afstöðu barns til samskipta við geranda. Börn hafa greint frá því hvernig endurteknar spurningar sýslumanns út í nákvæm smáatriði er varða minningar um kynferðisofbeldi láta þeim líða eins og þeim sé ekki trúað. Getur verið að þessi yfirheyrsluaðferð sé notuð til að athuga hvort börn séu í sjálfsbjargarviðleitni sinni að ljúga til um ofbeldi til að sýna umönnunaraðila sínum tillitssemi?

Óljóst hversu mörgum börnum er hlíft við umgengni við ofbeldismenn

Í viðtalinu gefur Eyrún sviðsstjóri fjölskyldusviðs Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, í skyn að kveðnir séu upp úrskurðir þar sem umgengnisréttar nýtur ekki við en tekur fram að þeir séu sjaldgæfir.

SJÁ EINNIG

Börn þvinguð til umgengni við ofbeldismenn – kerfisbundið horft framhjá gögnum um kynferðisbrot

Í umfjöllun Stundarinnar um úrskurði sýslumanns sem birt var á vefsíðu þann 12. maí 2018 kemur fram að á árunum 1999-2009 hafi aðeins einn úrskurður verið kveðinn upp, þar sem fallist var á að umgengni foreldris við barn teldist andstæð hagsmunum þess. Í því máli var sterkur grunur um að faðirinn hefði misnotað dóttur sína.

Yngri dóttir mannsins var þó úrskurðuð í umgengni undir eftirliti. Þeirri spurningu er enn ósvarað hversu oft umgengnisrétti hefur verið hafnað með úrskurði frá árinu 2009 til dagsins í dag en ummæli Eyrúnar gefa tilefni til þess að ætla að megi svara því. Hversu oft hafa sýslumenn hafnað umgengnisrétti vegna ofbeldis foreldris gegn barni eða nákomnum síðastliðinn áratug? 

Þolendum ofbeldis ekki leiðbeint um rétt sinn í sáttameðferð

Árið 2012 var fest í lög að foreldrar væru skyldugir til að leita sátta áður en krafist væri úrskurðar eða höfðuð mál um forsjá, lögheimili, umgengni, dagsektir eða aðför. Því er haldið fram í viðtalinu að konum sem eru þolendur heimilisofbeldis sé boðið að mæta einar í sáttameðferð í samræmi við þær heimildir sem sýslumaður hefur. Nýleg dæmi sýna að konur eru annað hvort hunsaðar þegar þær óska eftir að þurfa ekki að mæta geranda sínum eða sáttamaður reynir að sannfæra konur um að mæta í sáttameðferð með geranda þeirra. Margar konur óttast að þær verði látnar bera hallann af því í málinu ef þær hafna sáttameðferð með geranda. Í nýlegri meistararitgerð Jennýjar Kristínar Valberg í kynjafræðum, um upplifun brotaþola heimilisofbeldis af skilnaðarferli og sáttameðferð kemur fram að þó að sýslumaður hafi heimildir til að boða foreldra á sáttafundi hvort í sínu lagi þá hafi úrræðið ekki verið nýtt hjá neinni af þeim tíu kvenna sem rætt er við í ritgerð Jennýjar.  

SJÁ EINNIG

Þegar sáttameðferð framlengir ofbeldið

Stundin sagði frá því í júlí síðastliðnum hvernig Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu taldi sig ranglega vera óbundinn af stjórnsýslulögum við framkvæmd sáttameðferðar.  Dómsmálaráðuneytið leiðrétti þessa lögvillu sýslumanns eftir að Umboðsmaður Alþingis hafði innt eftir viðbrögðum ráðuneytisins. Af þessu tilefni beindi Stundin þeirri spurningu til sýslumanns hvort og þá hvaða breytingar hafi verið gerðar á verklagi sáttameðferðar eftir leiðréttinguna um að stjórnsýslulög giltu um framkvæmd hennar. En einnig hvort sýslumaður hefði látið athuga hvort ranghugmynd embættisins um sáttameðferð hefði bitnað á rétti fólks sem hefur þurft að nýta sér þjónustuna og þá hvernig. Sýslumaður hefur ekki svarað þessum spurningum.  

SJÁ EINNIG

Sýslumaður hélt að sáttameðferð væri undanþegin stjórnsýslulögum

Eyrún telur að gagnrýni þolenda ofbeldis, á málavinnslu sýslumanns, kunni að stafa af þeim misskilningi að það sé erfitt fyrir fólk að átta sig á þeirri ólíku nálgun sem sé annarsvegar í sáttaferli, þar sem sáttamaður tekur ekki afstöðu, og í því ferli sem lýkur með úrskurði sýslumanns. Þessari athugasemd verður að vísa aftur til föðurhúsanna því hluti af skyldu stjórnsýslunnar er einmitt að leiðbeina og upplýsa viðkomandi um málsmeðferðina. Ef ekki tekst betur til en svo að notendur  greina ekki á milli sáttameðferðar og úrskurðarferlis, vekur það upp spurningar um hvort meðferð máls getur talist fullnægjandi af hálfu sýslumanns ef aðili er ekki nægilega upplýstur um hvaða málsmeðferð hann undirgengst.

Kröfur um úrbætur

Þær kröfur sem LÁO hafa sett fram við stjórnvöld og óskir til samfélagsins eru ekki ýkja stórkostlegar. Óskað er eftir að gagnrýni sé tekin til greina og að foreldrum í ofbeldishættu eða með börn í ofbeldishættu sé leiðbeint og þau studd. Óskað er eftir skýrum leiðbeiningum um hvaða gögn séu tekin til greina í lögbundnu mati á ofbeldishættu og þess krafist að þau gögn hafi vægi við réttarákvarðanir í forsjár- og umgengnismálum. Beðið er um að börnum sé hlíft við mannréttindabrotum og séu ekki þvinguð með stjórnvaldsákvörðunum í umgengni við gerendur sína, síst af öllu þegar þau segjast sjálf ekki vilja neina umgengni. Beðið er um að þeim sé hlíft við ómannúðlegum yfirheyrslum hjá sýslumanni um ofbeldi sem þau hafa orðið fyrir. 

Í samtali dómsmálaráðherra við fulltrúa LÁO á dögunum kom skýrt fram að ráðherra lítur fyrst og fremst á embætti sýslumanns sem stofnun í þjónustu við almenning.  Við deilum þeirri sýn og leggjum til að opinberir starfsmenn sem auk þess fara með umboðsvald ríkisins í fjölskyldumálum taki gagnrýni fremur en að gera lítið úr reynslu almennings af þeirri þjónustu sem þeim er skylt að veita og almenningur þarf að treysta á að sé fagleg og réttlát. 

Previous
Previous

Bíða stjórnvöld þess að barn sé myrt?

Next
Next

Falskenningin um foreldrafirringu