Grein eftir móður barnsins sem var þvingað til föður með aðför á spítala

Haldið þið að Ísland sé öruggt ríki?

Ég er móðir drengsins sem var sóttur með sjö klukkustunda aðför á Barnaspítala Hringsins þann 2. júní í fyrra, og þvingaður gegn vilja sínum í umsjá föður síns. Við erum með sameiginlega forsjá yfir barninu samkvæmt Landsréttardómi. Áður hafði héraðsdómur falið mér einni forsjá barnanna, af gildri ástæðu. Það er einmitt skjalfest í gögnum barnaverndar í sveitarfélaginu hvernig lagt var hart að mér að skilja við manninn. Ef ég vildi að öll börnin mín byggju við andlegt og líkamlegt öryggi, átti ég að skilja við hann, og var mér sagt að hótanir hans um ofbeldi og lögsóknir eftir skilnað væru innantómar.

Ég og börnin flúðum af heimilinu í byrjun árs 2020, með örfáar flíkur meðferðis. En engin barnavernd eða yfirvöld komu okkur til hjálpar þegar maðurinn lét næstum allar hótanir sínar rætast, alveg eins og ég hafði sagt þeim að myndi gerast. Hann á ennþá eftir að standa við hinar sem halda áfram að vera óuppfylltar á meðan ég og börnin mín eru ofanjarðar.

Landsréttur ákvað að réttast væri að sonur minn fengi enga umgengni við mömmu sína mánuðum saman, það var okkar refsing fyrir að ég verndaði hann. Ég var auðvitað skömmuð fyrir að upplýsa almenning um hvað væri að eiga sér stað, að ég væri einhvern veginn að meiða börnin mín með sannleikanum sem þau þekkja betur en allir dómarar og sýslumenn landsins. Í hlýðni minni og ótta við refsivönd kerfisins hef ég því þagað í heilt ár. En í raun hefur þögn mín engu skilað nema enn grófara og gengdarlausu ofbeldi með ógnarstjórn og niðurbroti barnanna minna allra.

Eftir að sýslumaður hafði framkvæmt eiginlega handtöku á barninu mínu í miðri lyfjagjöf á Barnaspítalanum, með aðstoð lögreglu til að koma á lögheimili föður, reyndi barnavernd af veikum mætti að athuga með líðan drengsins hjá föður. Faðir veitti barnavernd engan aðgang að barninu, en lét þeim að lokum eftir eitt örstutt samtal starfsmanns barnaverndar við drenginn, sem þá sýndi depurð. Ekkert frekara eftirlit var haft með drengnum af hálfu barnaverndar, þangað til um haustið þegar grunur vaknaði um að drengurinn væri beittur ofbeldi í umsjá föður síns. Það kom í ljós að barnið var með áverka á handleggjum sem hann átti erfitt með að útskýra. Við fjölskyldan og aðstandendur sem hafa um árabil vitað hvað barnsfaðir minn er fær um að gera heimilisfólki sínu og gæludýrum, vorum öll frávita af áhyggjum af barninu sem bersýnilega leið mjög illa. Það fór svo að drengurinn var sóttur í skólann af systkinum sínum og færður til mín, og faðir hans strax látinn vita að drengurinn væri öruggur hjá mér. Þegar litli drengurinn minn, sem er samt svo óendanlega sterkur kom til mín, komu í ljós enn frekari áverkar á honum víða um líkamann á einkennilegum stöðum.

Við tók ótrúleg, hreint út sagt sturluð atburðarás sem virðist engan enda ætla að taka. Ég ætla að gera mitt besta til að gera hana skiljanlega, þó það sé næstum ógjörningur fyrir mig.

Barnavernd gerði þá óvenjulegu ráðstöfun að vista drenginn utan heimilis hjá ókunnugu fósturforeldri, að sögn, til að tryggja sannleiksgildi framburðar drengsins í Barnahúsi. Ég, sem sýndi fullt samstarf við barnavernd, hafði engan aðgang að drengnum í þessari vistun, fyrir utan símtöl sem voru vöktuð af vistunaraðila sem ég vissi heldur engin deili á. Meðan á þeirri vistun stóð, greindi drengurinn frá ofbeldi föður fyrir dómi í Barnahúsi, og hélt ég þá að okkur yrði kannski loksins trúað.

Eftir skýrslutökuna í Barnahúsi þar sem sagt var að hann hefði lýst alvarlegu ofbeldi af hálfu föður, ákvað barnavernd að sonur minn yrði áfram vistaður utan heimilis föður, en sú vistun var felld úr gildi í héraðsdómi því dómarinn trúir ekki barninu mínu. Þegar þetta varð ljóst, strauk sonur minn úr vistuninni og komst aftur í mína umsjá. Barnavernd áfrýjaði dómi héraðsdóms til Landsréttar, sem tók ekki afstöðu til málsins vegna seinagangs.

Faðir fór fram á aðför í annað sinn, sem var heimiluð í héraðsdómi og nú aftur í Landsrétti. Ástæðan er einfaldlega sú að dómarar sem dæma eftir barnalögum, taka eindregna ákvörðun um að trúa því ekki að barnið sé að segja satt. Ekki einu sinni fær barnið að njóta vafans gagnvart föður á meðan faðirinn hefur stöðu sakbornings í lögreglurannsókn, vegna þeirra brota sem hann er grunaður um gagnvart barninu. Dómarar vilja ekki leyfa barninu að dvelja hjá mér, forsjárforeldri hans, þrátt fyrir að forsjárhæfni mín hafi í raun aldrei verið dregin í efa af yfirvöldum, hvorki af barnavernd né dómstólum, enda fer ég með forsjá beggja barna minna sem eru undir lögaldri.

Eflaust er það ósjálfráð hugsun einhverra að efast, að íslenska ríkið okkar og fulltrúar þess geti ekki verið færir um slíka grimmd gagnvart barni, eitthvað hljóti frekar að vera athugavert við mig sem móður, það hljóti að vera skýringin. Það er nefnilega svo óþægileg uppgötvun að Ísland sé ekki öruggt ríki fyrir börn og konur. Svo hörmulegt þegar heimsmyndin manns hrynur. Þægilegra að hugsa bara að þarna sé enn ein brjáluð konan, enn eitt lygakvendið sem fær það sem hún á skilið.

Jafnvel þótt öll börnin mín, nú á aldrinum 10-19 ára, hafi sagt frá ofbeldi barnsföður míns. Þrátt fyrir læknisvottorð um marbletti um allan líkama drengsins, ráðstöfun á fósturheimili til að tryggja að framburður barnsins væri ólitaður af viðhorfum mínum, og þó að skilnað okkar megi rekja beint til þess að barnavernd sagði mér að yfirgefa manninn til að ekki þyrfti að vista elsta barnið mitt utan heimilis vegna ofbeldis barnsföður míns. Þó elsta barnið mitt hafi gert alvarlega tilraun til sjálfsvígs vegna óbærilegra afleiðinga ofbeldisins og næstum tekist það, aðeins 15 ára gömlum í skólarútu. Svo ég tali nú ekki um margvíslega áverka á mér sem til eru myndir og læknisvottorð um, og að hann hafi verið settur í nálgunarbann gagnvart mér þegar við skildum.

Staðan hjá okkur núna er sú að drengurinn getur ekki fengið þá heilbrigðisþjónustu á barnaspítalanum sem hann hefur fengið í mörg ár, því hann er einfaldlega ekki öruggur þar. Hann getur ekki sótt hefðbundið skólastarf. Drengurinn er í eftirliti hjá lækni á einkastofu, og fær einkakennslu sem ég borga fyrir sjálf. Ég get hvorki treyst því að heilbrigðisyfirvöld né önnur yfirvöld á Íslandi gæti að öryggi barnsins eða virði hans rétt til lífs og verndar.

Heilsu hans hefur reyndar farið verulega fram við að vera í vernduðu umhverfi þar sem hann upplifir öryggi og virðingu og hann virðist, enn sem komið er, ekki þurfa þau lyf sem hann þurfti áður. Einkenni sem hann hefur glímt við eru nefnilega álagstengd, eins og barnaverndaryfirvöld og dómstólar hafa verið upplýst um.

Nú er staðan sú að ég er búin að eyða yfir tug milljóna í að berjast fyrir því að vernda börnin mín. Ég hef dvalið í Kvennaathvarfinu mánuðum saman á mismunandi tímabilum. Ég hef yfirgefið heimilið mitt og allar eigur mínar ítrekað, og þurft að endurnýja allt innbú. Lögfræðikostnaður hrannast upp og ég er dæmd til að borga lögfræðikostnað föður. Á tímabili tapaði ég næstum alveg líkamlegri heilsu vegna andlegs álags og sá varla tilgang með lífinu lengur. Það sem hélt í mér lífinu var að ég vissi að ég yrði að vera til staðar fyrir börnin mín. Ég er þeirra eina von, en á sama tíma virðist ég sem móðir vera helsta ástæðan fyrir því að börnunum mínum er ekki trúað. Það er nefnilega svo miklu auðveldara að trúa því að konur séu klikkaðar og lygasjúkar, en að til séu feður sem meiði börnin sín og konur bakvið luktar dyr.

Ég er tilbúin að fórna öllu sem ég á til að bjarga börnunum mínum. Ætla íslensk yfirvöld að fórna konu og börnum hennar á altari réttar föður til að tortíma lífi fjölskyldu sinnar?

Uppfært: Þúsund þakkir til þeirra sem hafa beðið um reikningsnúmerið mitt og vilja styðja við okkur ❤️ Ég get ekki annað en þegið það ❤️

Þau sem vilja leggja okkur lið geta lagt inn á mig:

Reikningsnúmer: 0354-26-004209

Kt: 010383-4209

Previous
Previous

Svar dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Jóhanni Páli Jóhannssyni um aðfarargerðir og hagsmuni barna.

Next
Next

Fundur með Ásmundi Einari Daðasyni; hagsmunir barna trompa allt annað